Innlent

Panamaskjölin: Ekkert verið rannsakað vegna Mossack Fonseca

Birta Svavarsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Fréttablaðið/Ernir
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir héraðssaksóknara ekki hafa hafið almenna rannsókn á uppruna fjár í aflandsfélögum. Þetta kemur fram í svari Ólafar við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, um rannsókn á aflandsfélögum.

Fyrirspurn Birgittu hljóðar svo:

1. Hefur verið stofnað til rannsóknar, af hálfu íslenskra yfirvalda, þ.e. lögreglu eða skattyfirvalda, á uppruna fjár í aflandsfélögum? Ef svo er, hefur verið leitað liðsinnis erlendra eða alþjóðlegra aðila á borð við Europol og Interpol við slíka rannsókn? 

2. Telur ráðherra ástæðu til að veita viðeigandi yfirvöldum fullnægjandi fjármagn til slíkrar rannsóknar

Segir í svari Ólafar að ráðuneytið hafi óskað eftir umsögn héraðssaksóknara, sem hafi tekið við öllum ókláruðum málum frá embætti sérstaks saksóknara þegar embættið var lagt niður 31. desember 2015. Í nokkrum þeirra mála, svokölluðum hrunmálum, hafa aflandsfélög komið við sögu og þar með talið uppruni fjár í félögum. Í þeim málum hafi sérstakur saksóknari notast við aðstoð Europol í nokkrum tilfellum, en ekki hafi verið óskað eftir aðstoð Interpol.

„Varðandi svokölluð Panamaskjöl og umræðu um aflandsfélög tengd gagnaleika frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama, skal áréttað að héraðssaksóknari hefur ekki hafið almenna rannsókn á uppruna fjár í aflandsfélögum.“

Innanríkisráðherra segist að lokum ekki hafa upplýsingar um það hvort önnur stjórnvöld utan innanríkisráðuneytis, til dæmis skattyfirvöld, hafi stofnað til rannsóknar varðandi uppruna fjár í aflandsfélögum. Ennfremur segir ráðherra mikilvægt að veita viðeigandi yfirvöldum fullnægjandi fjármagn til rannsóknar, ef rökstuddur grunur er til þess að ætla að brot hafi verið framin.

Hér má sjá svar innanríkisráðherra í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×