Innlent

Synti frá Vestmannaeyjum til Landeyja

Gissur Sigurðsson skrifar
Jón Kristinn Þórsson fyrir sundið í gærkvöldi.
Jón Kristinn Þórsson fyrir sundið í gærkvöldi. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Sundkappinn Jón Kristinn Þórsson náði landi á Landeyjasandi á sjöunda tímanum í morgun en hann hóf sundið frá Eiðinu í Vestmannaeyjum klukkan ellefu í gærkvöldi. Sundið tók sjö og hálfa tíma en stefnt hafði verið á að ná til Landeyjahafnar á fjórum tímum. Straumar reyndust óhagstæðir en vegalengdin er um 15 kílómetrar.

„Þetta gekk brösulega en ég kláraði þetta. Þetta var erfiðara en ég bjóst við,“ segir Jón Kristinn. Straumarnir hafi verið miklu meiri en hann hafi órað fyrir. Jón hafði rætt við menn sem hafa synt þessa leið og eftir þau samtöl reiknaði hann með fjórum tímum í sjónum. Hann velti fyrir sér að hætta við.

„Það hvarflaði að mér strax í byrjun þegar ég sá hve úfinn sjórinn var og straumarnir miklir. Ég ákvað samt að halda smá áfram og þetta batnaði aðeins,“ segir Jón Kristinn sem starfar sem lögreglumaður og greinilega í góðu formi.

Ermasundið næst á dagskrá

Sjórinn var í kringum ellefu gráður að hans sögn en hann segist varla muna eftir augnablikinu þegar hann loks kom í land.

„Ég man að ég kom í land en skildi strákana ekki alveg þegar þeir voru að tala við mig. Mér fannst þeir vera að tala útlensku við mig. Svo eftir heita sturtu kom þetta til baka.“

Jón Kristinn synti Drangeyjarsundið fyrir tveimur árum og stefnir á að synda yfir Ermasundið næsta sumar. Hann er búinn að panta sér pláss en nokkrir Íslendingar hafa synt yfir sundið. Síðast gerði Sigrún Þuríður Geirsdóttir það í fyrrasumar fyrst íslenskra kvenna.

Fyrst var greint frá málinu á vef Eyjafrétta þar sem sjá má fleiri myndir Óskars Péturs Friðrikssonar af Jóni Kristni frá því í gærkvöldi.


 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×