Fótbolti

Stjörnur ESPN á EM 2016 eru Griezmann, Ísland og Wales

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
Bandaríski íþróttamiðilinn ESPN fjallaði ítarlega um Evrópumótið í Frakklandi á meðan því stóð og var með einn bloggara frá hverri þátttökuþjóð sem sögðu frá keppninni frá sínu sjónarhorni.

ESPN fékk líka fyrrnefnda bloggara til að gera upp Evrópumótið í Frakklandi og þar kennir ýmissa grasa en það er samt einn rauður þráður. Það leynist ekkert eftir þann lestur að Frakkinn Antoine Griezmann, Ísland og Wales eru stjörnur mótsins.

Allir þessir 24 bloggarar áttu að gefa sínu liði einkunn frá 1 til 10, velja besta leikmanninn, lið mótsins og uppáhalds minninguna sína frá EM 2016 auk þess að horfa til framtíðar hjá sínu landsliði.

Antoine Griezmann var langmarkahæsti maður Evrópumótsins og hann fékk líka yfirburðarkosningu sem besti maður mótsins hjá bloggurunum. 16 af 24 bloggurum kusu hann en Portúgalinn Pepe varð í öðru sæti með fjögur atkvæði.

Bloggararnir frá Portúgal og Wales gáfu sínu liði 10 fyrir mótið en sá íslenski, sem er blaðamaðurinn Víðir Sigurðsson, gaf Íslandi 9 í einkunn alveg eins og sá norður-írski. Víðir er líka með Ragnar Sigurðsson í úrvalsliði sínu.

Ragnar Sigurðsson fékk alls fjögur atkvæði í úrvalsliðið og þá völdu bloggararnir frá Wales og Norður-Írlandi Gylfi Þór Sigurðsson í sitt úrvalslið.

Ísland var hinsvegar afar áberandi þegar bloggararnir 24 fóru að rifja upp uppáhalds minninguna sína frá EM í Frakklandi 2016. Alls voru tíu af bloggurunum sem nefndu þar Ísland og þá oftast sigurinn á Englandi eða frábær frammistaða stuðningsfólksins.

Bloggararnir frá Austurríki, Króatíu, Frakklandi, Þýskalandi, Íslandi, Írlandi, Slóvakíu, Svíþjóð, Sviss og Úkraínu voru allir með íslenska minningu í fyrsta sæti.

Ísland fékk líka óbeint atvæði frá Rússanum sem hrósaði öllum stuðningsmönnum mótsins og þá sérstaklega þeim sem voru að á EM í fyrsta sinn eins og Ísland.

Það er hægt að sjá alla umfjöllun ESPN um val bloggara sína og það sem hver þeirra sagði um mótið með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Sjáið Sir Alex óska Ronaldo til hamingju | Myndband

Cristiano Ronaldo náði langþráðu takmarki í gærkvöldi þegar hann vann sinn fyrsta titil með portúgalska landsliðinu þegar Portúgal vann 1-0 sigur á Frakklandi í úrslitaleik EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×