Íslenski boltinn

Þriðji Guðjohnsen ættliðurinn í Val?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen, leikmaður HK, er á leið í Pepsi-deildarlið Vals að því fram kemur á fótbolti.net en hann er ekki með KSÍ samning við HK og fá Valsmenn hann því án greiðslu.

Sveinn Aron er elsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen sem spilaði með Val fyrir 22 árum síðan. Sextán ára gamall Eiður Smári skoraði sjö mörk í 17 leikjum fyrir Val í efstu deild áður en hann var seldur út.

Gangi félagaskiptin í gegn verður Sveinn Aron þriðji Guðjohnsen ættliðurinn sem spilar fyrir Val en afi hans, Arnór Guðjohnsen, spilaði fyrir Hlíðarendafélagið þegar hann kom heim úr atvinnumennsku árið 1998. Arnór spilaði 41 leik fyrir Val í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og skoraði 22 mörk.

Hinn 18 ára gamli Sveinn Aron hefur spilað frábærlega fyrir HK í Inkasso-deildinni. Í gær skoraði hann sitt fimmta mark í deildinni þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Huginn í Kórnum. Sveinn Aron er í heildina búinn að skora fimm mörk í tíu leikjum og er ásamt nokkrum öðrum markahæstur í Inkasso-deildinni.

Sveinn Aron er einn af efnilegustu leikmönnum landsins en hann á að baki níu leiki fyrir U17 ára landsliðið og þrjá leiki fyrir U19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×