Erlent

Talið að Zikaveiru faraldurinn hafi náð hámarki

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Börn sem fæðast af sýktum mæðrum eiga það til að vera með óvenju lítil höfuð og litla heila.
Börn sem fæðast af sýktum mæðrum eiga það til að vera með óvenju lítil höfuð og litla heila. Vísir/Getty
Bandarískir og breskir sérfræðingar segja að útbreiðsla Zika veirunnar hafi nú náð hámarki og að faraldurinn gæti liðið undir lok innan 18 mánaða. Gert hefur verið líkan af útbreiðslu veirunnar sem einnig getur spáð fyrir um hvernig þróun hans gæti orðið næstu mánuði.

Veiran hefur greinst í yfir 35 Ameríkulöndum en hún dreifist á milli manna með moskítóflugum. Talið er að hún valdi fæðingargalla í börnum sýktra mæðra. Veiran er talin valda því að börn fæðist með óvenju lítil höfuð og litla heila.

Vísindamenn við Imperial College í London og John Hopkins Bloomberg School of Public Health í Baltimore eru bjartsýnir á að útbreiðsla veirunnar hafi þegar náð hámarki. Unnið var úr gögnum frá Suður-Ameríku og áætluðum fjölda moskítóflugna á svæðinu.

Talið er að faraldurinn muni standa yfir í um þrjú ár í heildina. Eftir það séu töluverðar líkur á því að fólk á svæðinu muni þróa með sér ónæmi fyrir veirunni. Þá sé ólíklegt að annar eins faraldur geti komið upp næstu tíu árin í það minnsta.

The Guardian fjallar ítarlega um málið.


Tengdar fréttir

Vísindamenn vilja fresta Ólympíuleikunum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ekki sé ástæða til að færa eða fresta fyrirhuguðum Ólympíuleikum í Brasilíu vegna zika-veirunnar. Hundrað og fimmtíu virtir vísindamenn skoruðu á stofnunina að mælast til þess að leikunum yrði frestað vegna hættu á aukinni útbreiðslu veirunnar um heim allan.

„Þetta lítur ekki út eins og barn"

Ný skýrsla UNICEF staðfestir útbreiðslu Zika veirunnar um alla rómönsku Ameríku. Meðal verkefna sem framundan eru, er að hefta útbreiðslu veirunnar og auka fræðslu til að sporna við fordómum gegn þeim sem smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×