Enski boltinn

Mourinho hrósaði Luke Shaw eftir fyrsta leikinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Shaw í leiknum í gær.
Shaw í leiknum í gær. Vísir/getty
 

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var ánægður í viðtölum eftir fyrsta leik sinn sem knattspyrnuþjálfari Manchester United en honum lauk með 2-0 sigri gegn Wigan.

Mourinho hrósaði bakverðinum unga Luke Shaw sem sneri aftur á völlinn í gær tíu mánuðum eftir að hafa fótbrotnað í leik gegn PSV í Meistaradeild Evrópu.

Mourinho greindi frá því að Shaw hefði eytt sumarfríinu á æfingarsvæði Manchester United en það hefði komið honum á óvart hversu vel endurhæfingin hefði gengið.

„Mér brá fyrst þegar ég sá hann á æfingarsvæðinu. Ég hélt að hann þyrfti að fara varlega af stað en hann var búinn að nýta allt sumarið á æfingarsvæðinu til þess að vera tilbúinn. Hann eyddi sumrinu í Manchester og mætti á æfingarsvæðið á hverjum degi,“ sagði Mourinho og bætti við:

„Auðvitað vantar eitthvað aðeins upp á snerpuna og sjálfstraustið en það kemur með tímanum. Ég ákvað að taka hann af velli í hálfleik til að vera öruggur um að ekkert kæmi upp á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×