Fótbolti

Bara Ragnar og Jón Daði mega fá gult ef spila á sama liði í undanúrslittum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði og Ragnar mega fá gult á morgun en helst ekki meira en það.
Jón Daði og Ragnar mega fá gult á morgun en helst ekki meira en það. vísir/vilhelm
Fimmta leikinn í röð geta landsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck stillt upp sama byrjunarliði þegar Ísland og Frakkland mætast annað kvöld í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

Allir leikmenn liðsins eru heilir að sögn Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í gær og það sem meira er þá er enginn strákanna okkar í leikbanni.

Það er erfitt að ímynda sér að mörg önnur lið hafi komist í gegnum fjóra leiki á stórmóti án þess að missa leikmann í bann, sérstaklega þegar sömu mennirnir eru búnir að byrja alla leikina.

Takist íslenska liðinu að leggja gestgjafa Frakklands á Stade de France annað kvöld mega bara miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson og framherjinn Jón Daði Böðvarsson fá gult spjald ætli Lars og Heimir að stilla upp sama byrjunarliðinu í undanúrslitunum.

Það er auðvitað að því gefnu að byrjunarliðið verði eins á morgun en það verður að teljast ansi líklegt. Þeir hafa ekki gert breytingar hingað til og eru ekki mikið í því þegar liðið er að spila vel og allir eru heilir.

Fyrir utan Ragnar og Jón Daða eru hinir níu leikmennirnir sem hafa byrjað alla leikina; Hannes, Birkir Már, Kári, Ari Freyr, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg, Gylfi Þór, Aron Einar og Kolbeinn, allir á gulu spjaldi og verða í banni í undanúrslitum fái þeir gult gegn Frakklandi á morgun.

Gulu spjöldin þurrkast svo út þegar komið er í undanúrslitin þannig engi geti verið í banni vegna gulra spjalda í sjálfum úrslitaleiknum.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×