Fótbolti

Magnús Scheving: Íþróttaálfurinn hlýtur að hafa kennt þeim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Maður hefur upplifað margar stórar stundir og þetta er svakaleg stund,“ segir íþróttaálfurinn og athafnamaðurinn Magnús Scheving sem er í París eins og stór hluti þjóðarinnar.

„Ég var á leiknum í Nice og hef aldrei verið á íþróttasamkomu sem var eins svakaleg. Það var svo flott að sjá hvernig þeir tóku Englendingana og þá hugsaði maður að íþróttaálfurinn hlyti að hafa þjálfað þessa stráka. Það gæti ekki annað verið,“ segir Magnús léttur.

„Það er svo mikil stemning í öllu fólkinu á vellinum. Þegar við byrjum þá hlusta hinir. Við áttum völlinn í Nice og vonandi verður það áfram þannig núna.“

Magnús nýtur sín að fylgjast með drengjunum sem hann hefur mikla trú á.

„Það er ótrúlega þægileg tilfinning í íþróttum að hafa engu að tapa. Hafa bara allt að vinna og vera laus við allt stress. Þetta er eins og að reka fyrirtæki þar sem er bara blússandi hagnaður.

„Frakkar hafa öllu að tapa eins og Bretarnir og mótlætið getur stressað menn. Ég held að strákarnir séu virkilega tilbúnir í þennan slag,“ segir Magnús en hann vill ekki sjá leikinn fara í vítakeppni.

„Ég hef áhyggjur af henni því við höfum ekki reynslu þar. Þar vantar okkur æfingu. Held ég. Maður veit ekki því það er rosalegt sjálfstraust í þessum strákum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×