Innlent

Evaristti gerðist ekki brotlegur við náttúruverndarlög

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Síleski listamaðurinn Marco Evaristti sem ákærður er fyrir að hella fimm lítrum af rauðum matarlit í hverinn Strokk á Geysissvæðinu í Haukadal í fyrra.
Síleski listamaðurinn Marco Evaristti sem ákærður er fyrir að hella fimm lítrum af rauðum matarlit í hverinn Strokk á Geysissvæðinu í Haukadal í fyrra. Vísir/ MARCO EVARISTTI
Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær síleska listamanninn Marco Evaristti af ákæru um brot á náttúruverndarlögum þegar hann hellti rauðu litarefni í hverinn Strokk á Geysissvæðinu í Haukadal á síðasta ári.

Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms er hinni ætluðu refsiverðu háttsemi sem Evaristti var gefin að sök lýst með þeim hætti í ákæru að vafi leikur á hvort hún er í raun refsiverð samkvæmt náttúruverndarlögum. Þá liggi ekkert fyrir í málinu um að Evaristti hafi valdið spjöllum á náttúru landsins með uppátækinu sem var gjörningur að sögn listamannsins. Var hann því sýknaður af ákærunni.

Evaristti var í apríl í fyrra sektaður um 100 þúsund krónur fyrir athafið, en í samtali við Vísi þann dag sagðist hann ekki ætla að greiða sektina. Frekar færi hann með málið fyrir dómstóla.

Uppátæki listamannsins vakti mikið hneykslan hér á landi, sem í raun var hans markmið. Markmiðið hafi verið að vekja fólk til umhugsunar um umhverfið sjálft og náttúruna. Hann hefur ítrekað sagt að matarliturinn sem hann hafi notað hafi ekki verið skaðlegur náttúrunni á nokkurn hátt.

„Þetta hvarf á nokkrum klukkutímum eftir að hverinn gaus. Það er betra að láta matarlitinn minn í hverinn heldur en að aka um á öllum þessum rútum sem flytja farþega að Geysi. Rúturnar menga andrúmsloftið með koltvíoxíð en enginn reynir að stöðva rúturnar. Þið megið henda mynt í hverinn en ekki matarlit sem mengar ekki,“ sagði Marco í samtali við Vísi þegar aðalmeðferð málsins fór fram í seinasta mánuði.

Dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×