Innlent

Ákærður fyrir að hafa hellt litarefni í Strokk

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gefið út ákæru á hendur Marco Evaristti, listamanninum sem hellti rauðu litarefni í hverinn Strokk á síðasta ári.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gefið út ákæru á hendur Marco Evaristti, listamanninum sem hellti rauðu litarefni í hverinn Strokk á síðasta ári. vísir/marco evaristti
Síleski listamaðurinn Marco Evaristti, sem hellti rauðu litarefni í hverinn Strokk á Geysissvæðinu í Haukadal á síðasta ári, hefur verið ákærður af lögreglustjóranum á Suðurlandi fyrir brot á náttúruverndarlögum. Mál hans verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag.

Evaristti var í apríl í fyrra sektaður um 100 þúsund krónur fyrir athafið, en í samtali við Vísi þann dag sagðist hann ekki ætla að greiða sektina. Frekar færi hann með málið fyrir dómstóla.

Uppátæki listamannsins vakti mikið hneykslan hér á landi, sem í raun var hans markmið. Markmiðið hafi verið að vekja fólk til umhugsunar um umhverfið sjálft og náttúruna. Hann hefur ítrekað sagt að matarliturinn sem hann hafi notað hafi ekki verið skaðlegur náttúrunni á nokkurn hátt.

Evaristti er ákærður fyrir að hafa vísvitandi hellt fimm lítrum af rauðum matarlit ofan í Strokk, „með þeim afleiðingum að umhverfi hversins var raskað þar sem hverinn gaus rauðlituðu vatni sem sat eftir í pollum og litablettir urðu eftir á steinvölum og hverahrúrði í kringum hann, þar sem litarefnið slettist á og sat eftir um nokkurn tíma,“ að því er segir í ákærunni.

Hann er ákærður fyrir að hafa raskað náttúru en fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2  að stærð eða stærri, njóta verndar í lögum um náttúruvernd frá árinu 1999.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.