Fótbolti

Arnór Ingvi: Það er svo frábært að vera hérna að við viljum ekkert fara heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi Traustason fagna sigurmarkinu.
Birkir Bjarnason og Arnór Ingvi Traustason fagna sigurmarkinu. Vísir/AFP
Arnór Ingvi Traustason tryggði íslenska liðinu 2-1 sigur á Austurríki á Stade de France í kvöld og þar með leik á móti Englandi í sextán liða úrslitunum.

Þorsteinn Joð Vilhjálmsson og Guðmundur Benediktsson tóku Arnór Ingva í viðtal eftir leikinn í útsendingu Símans.  

„Við vorum komnir þrír á móti einum þarna upp og hann renndi honum fallega á mig. Ég sá eiginlega ekki hvernig boltinn fór inn en hann fór inn," sagði Arnór Ingvi.

„Ég sá að Theódór Elmar var með boltann og ég og Birkir tókum þetta hlaup. Ég fékk boltann á fjær og náði að skora," sagði Arnór Ingvi. En hvernig var tilfinningin að fagna með íslensku stuðningsmönnunum eftir leikinn?

„Ég er ennþá með hroll í öllum skrokknum. Þetta er eiginlega bara ótrúlegt. Horfðu á þau, þetta er ótrúlegt," sagði Arnór Ingvi og benti á íslenska fólkið í stúkunni.

„Það er tíu þúsund Íslendingar hérna. Hvað er hægt að segja annað en vá," sagði Arnór Ingvi.

„Við byrjuðum fyrri hálfleikinn mjög vel og náðum að halda aðeins í boltann. Fyrri hálfleikurinn var góður en við féllum alltof aftarlega í seinni hálfleik og þeir skora þetta mark," sagði Arnór.

„Við vorum ennþá með úrslit þegar staðan var 1-1 og ætluðum að halda í það. Svo fáum við þessa einu skyndisókn og klárum dæmið," sagði Arnór.

„Nú er bara England næst og við förum bara að undirbúa okkur undir þann leik.,“ sagði Arnór Ingvi.

„Ég vil ekki taka þetta á mig. Þetta er fyrst og fremst liðið sem hefur staðið sig svo frábærlega hérna. Mér finnst við eiga þetta allir skilið. Þetta er svo frábær hópur og það er svo frábært að vera hérna að við viljum ekkert fara heim,“ sagði Arnór.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.