Fótbolti

Aðallýsandi BBC velur Hannes í úrvalslið sitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes hefur varið flest skot allra markvarða á EM 2016.
Hannes hefur varið flest skot allra markvarða á EM 2016. vísir/vilhelm
Guy Mowbray, einn þekktasti knattspyrnulýsandi Bretlands, var fenginn til að velja úrvalslið riðlakeppninnar á EM 2016 fyrir BBC.

Ísland á einn fulltrúa í úrvalsliði Mowbrays; markvörðinn Hannes Þór Halldórsson sem hefur spilað einstaklega vel á sínu fyrsta stórmóti.

Til marks um það hefur Hannes varið flest skot allra markvarða á EM, eða 19 talsins. Norður-Írinn Michael McGovern kemur næstur á eftir Hannesi með 16 skot varin.

Sjá einnig: Hannes Þór: Svo gaman að helst vil ég fara alla leið

England, Ítalía og Frakkland eiga tvo fulltrúa hver í úrvalsliði Mowbrays.

Í vörninni fyrir framan Hannes eru Englendingurinn Kyle Walker, Ítalarnir Leonardo Bonucci og Giorgio Chiellini og Írinn Robbie Brady sem tryggði írska liðinu sæti í 16-liða úrslitum þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Ítalíu í gærkvöldi.

Á miðjunni eru Englendingurinn Eric Dier og Frakkinn N'Golo Kanté og fyrir framan þá Dimitri Payet (Frakklandi), Toni Kroos (Þýskalandi) og Ivan Perisic (Króatíu).

Fremstur er svo Walesverjinn Gareth Bale sem er markahæsti leikmaður mótsins ásamt Spánverjanum Álvaro Morata en þeir hafa báðir gert þrjú mörk á EM.


Tengdar fréttir

KSÍ fær 481 milljón fyrir árangurinn á EM

Íslenska landsliðið er verðlaunað fyrir árangurinn á EM í Frakklandi og hefur KSÍ nú þegar tryggt sér 3,5 milljónir evra í árangurstengdar greiðslur.

Sigurlaunin sæt á Stade de France í gær

Íslenska landsliðið í fótbolta komst í 16 liða úrslit á Evrópumótinu í gær þegar strákarnir okkar unnu Austurríki, 2-1, á Stade de France. Eftir erfiðan leik voru það varamennirnir sem innsigluðu sigurinn í stærsta leik liðsins frá upphafi.

Kári valinn í lið 3. umferðarinnar á EM

Kári Árnason gleymir gærdeginum eflaust seint. Miðvörðurinn átti þá frábæran leik þegar Ísland lagði Austurríki að velli, 2-1, og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum.

Heimir: Menn voru bara að missa sig

Leikmenn, þjálfarar og starfslið Íslands missti sig úr gleði þegar strákarnir skoruðu sigurmarkið gegn Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×