Fótbolti

Íslenskir stuðningsmenn þurfa ekki að óttast um öryggi sitt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslenskur lögreglumaður sem er hluti af öryggisteymi á Evrópumótinu í knattspyrnu á ekki von á vandræðum þegar íslenskir og portúgalskir stuðningsmenn koma saman í Saint-Étienne á þriðjudaginn. Til átaka kom milli stuðningsmanna Rússa og Englendinga í Marseille í gærkvöldi. 

Englendingar eru í sárum eftir að hafa misst unninn leik niður í jafntefli á lokamínútunum í gær. Athygli fjölmiðla eftir leik fór þó fljótlega að beinast að átökum stuðningsmanna þjóðanna, bæði í stúkunni og á götum Marseille. Reiknað er með því að UEFA refsi Rússum harðlega fyrir framkomu sinna stuðningsmanna.“

Stuðningsmenn Rússa eru sakaðir um kynþáttaníð og ofbeldi á áhorfendapöllunum á Stade Velodrome. Að leik loknum þurfti lögregla að beita táragasi til að sundra stuðningsmönnum þjóðanna. 

Ekki slagsmál úti um alla borg

Tjörvi Einarsson, íslenskur lögreglufulltrúi sem er hluti af öryggisteymi Evrópumótsins, segir að þótt átökin séu alvarleg verði að hafa í huga að þau séu staðbundin og eigi aðeins við um brotabrot stuðningsmanna

„Átökin virðast ekki vera jafnútbreidd og má lesa út úr fjölmiðlum. Og þau virðast vera bundin við hópa af bullum,“ segir Tjörvi. Það séu þær sem eru að slást á milli sín og ekki þannig að um sé að ræða slagsmál úti um alla borg.

Langflestir stuðningsmenn ætli að skemmta sér í Frakklandi og hvetur Tjörvi stuðningsmenn til að mæta á svokölluð Fan Zone þar sem eru risaskjáir, ókeypis inn og mikið öryggi.

„Því miður eru ekki alveg allir sem hafa sömu skilgreiningu á skemmtun og við hin. Við brýnum fyrir fólki að vera ekki að ögra, það er ekki víst að því verði vel tekið, og kannski ekki öllum sem finnst stríðni jafnfyndin,“ segir Tjörvi. Það séu almennar varúðarráðleggingar.

Ekki fyrir venjulegt fólk að hafa áhyggjur

Ísland mætir Portúgal í Saint-Étienne á þriðjudaginn og hefur ekki áhyggjur af öryggi Íslendinga.

„Það er haldið vel utan um öryggismál og 99% ætla ég að leyfa mér að fullyrða eru komin til að gera þetta á friðsamlegum nótum. Við venjulega fólkið eigum ekki að hafa of miklar áhyggjur af þeim. Bara þekkja að þetta sé til og vera ekki að sogast inn í svoleiðis vitlteysu.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×