Fótbolti

Kristbjörg: „Verð örugglega hágrenjandi á leiknum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Með hverjum ætli þessi haldi? Allir númer 17 en um er að ræða fjölskylda og föruneyti.
Með hverjum ætli þessi haldi? Allir númer 17 en um er að ræða fjölskylda og föruneyti. Vísir/Vilhelm
Kristbjörg Jónasdóttir, unnusta Arons Einars Gunnarssonar, var í landsliðstreyju númer 17 eins og allt hennar föruneyti þegar blaðamaður hitti á hana í miðbæ Saint-Étienne í dag. Hún var vel stemmd fyrir kvöldið.

„Reyndar átti ég pínuilítið erfitt með að sofna en ég svaf eins og engill loksins þegar ég sofnaði,“ segir Kristbjörg.

„Maður hugsar núna eins og þetta sé hver annar landsleikur en svo held ég að þetta eigi eftir að kikka betur inn á eftir.“

Kristbjörg og hennar föruneyti heldur til í húsi nærri Annecy, í sama bæ og landsliðið dvelur. Hún hefur verið í ágætu sambandi við sinn mann en hvernig verður það á leikdag?

Hafa gott af að heyra í fjölskyldunni

„Ég er ekkert mikið að trufla hann en að sjálfsögðu heyri ég aðeins í honum,“ segir Kristbjörg. „Ég held að þeir hafi allir gott að því að heyra í fjölskyldunni og koma sér svo almennilega í gírinn.“

Margir munu eflaust eiga erfitt með sig þegar strákarnir okkar ganga inn á völlinn í kvöld, gæsahúð og fallandi tár verða víða.

„Ég er algjörlega þannig týpa, og varð verri eftir að ég eignaðist strákinn minn. Ég er alveg viss um að ég eigi eftir að vera hágrenjandi á leiknum,“ segir Kristbjörg. „Það kæmi mér ekki á óvart. Það verða allavega nokkur tár, þjóðarstolt. Maður er svo stolt af strákunum.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur áFacebook,Twitterog Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×