Innlent

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar fordæmir vinnumansal á Hótel Adam

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/GVA
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir vinnumansalsmál vera blett á íslensku samfélagi. Mál sem nú er til rannsóknar er tengist Hótel Adam í miðbæ Reykjavíkur sé alvarlegt og hann fordæmi slíkt atferli.
 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mál erlendar konu sem var haldið nauðugri í starfi á hóteli á höfuðborgarsvæðinu en greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar tvö á föstudag. Fréttastofa hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að umrætt hótel sé Hótel Adam við Skólavörðustíg en hótelið komst í fréttirnar fyrr á þessu ári þegar það seldi ferðamönnum kranavatn á flösku.

 
Grímur Sæmundsen, stjórnarformaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir samtökin fordæma hvers konar brotastarfsemi í ferðaþjónustu.

 
„Það er blettur á okkar samfélagi að svona mál skuli koma upp. Maður bara trúir því ekki fyrr en maður tekur á því að það sé staðreynd. Þarna þarf að sjálfsögðu samstarf atvinnulífsins, launþegahreyfingarinnar og stjórnvalda að leggjast á eitt og uppræta svona ósóma,“ segir Grímur.

 
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að þögn Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka Iðnaðarins varðandi vinnumansal væri orðin ærandi. Grímur segist ekki átta sig á þessum ummælum og bendir á að Samtök atvinnulífsins, sem Samtök ferðaþjónustunnar eru aðili að, hafi ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að vinnumansali.

 
Hann segir mál Hótels Adam sem nú er til rannsóknar ekki hafa komið á borð samtakanna en hann fordæmi þetta atferli.

 
„Þetta er auðvitað lögreglumál og brot á lögum og þetta er í þeim farvegi sem því ber. En ég held að við getum lagt hönd á plóg ásamt launþegahreyfingunni að skapa samfélagslegan þrýsting um að svona eigi sér ekki stað,“ segir Grímur Sæmundsen.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×