Fótbolti

Eiður Smári, ferillinn og fjölskyldan í nýrri auglýsingu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu með íslenska landsliðinu.
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót á ferlinum eftir tuttugu ár í íslenska landsliðinu. Eiður Smári var síðasti leikmaðurinn sem var kynntur til leiks þegar Lars og Heimir sögðu íslensku þjóðinni frá EM-hópnum sínum.

Erlendir fjölmiðlar slógu því upp að hinn 37 ára gamli Eiður Smári Guðjohnsen væri í íslenska hópnum enda enn frægasti fótboltamaður Íslands fyrr og síðar eftir magnaðan ferill sinn og meistaratitla með stórliðum Chelsea og Barcelona svo eitthvað sé nefnt.

Skyr.is hefur látið gera mjög skemmtilega auglýsingu með Eiði Smára í aðdraganda Evrópumótsins í Frakklandi þar sem er farið er yfir stórar stundir á hans fótboltaferli.

Eiður Smári sést þar á ferðinni allt frá því að hann var lítill strákur til dagsins í dag. Á milli þessara myndbrota má sjá brot af því hversu mikið Eiður Smári er að leggja á sig til að geta spilað með íslenska landsliðinu á EM í sumar.

Auglýsingin endar síðan á skemmtilegu augnabliki þar sem öll fjölskyldan sést saman en þetta er sannkölluð fótboltafjölskylda enda allir synir Eiðs Smára og Ragnhildar Sveinsdóttur á fullu í fótboltanum.

Hér fyrir neðan má sjá þessa vel heppnuðu auglýsingu með Eiði Smára. Íslendingar eru stoltir af skyrinu sínu en ekki síður stolt af Eiði Smára Guðjohnsen, einum allra besta fótboltamanni þjóðarinnar frá upphafi.

Það má líka sjá myndbrot á bak við tjöldin við gerð þessarar auglýsingar.Það má einnig sjá það myndband hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×