Íslenski boltinn

Gary: Frammistaða dómarans var óvirðing við Víking Reykjavík

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin var ekki sáttur með Valdimar Pálsson.
Gary Martin var ekki sáttur með Valdimar Pálsson. vísir/stefán
Gary Martin og félagar hans í Víkingi eru enn án sigurs eftir þrjá leiki í Pepsi-deild karla í fótbolta en liðið tapaði fyrir Breiðabliki, 1-0, á Kópavogsvellinum í kvöld í lokaleik þriðju umferðar.

Víkingar misstu mann af velli á 39. mínútu þegar fyrirliðinn Viktor Bjarki Arnarsson lét reka sig af velli. Kvöldið var ansi erfitt fyrir Fossvogsliðið eftir það, marki undir.

"Þetta var meira en pirrandi. Frammistaða dómarans var óvirðing við Víking Reykjavík. Þannig hefur þetta verið í fyrstu þremur leikjunum," sagði Gary við Vísi eftir leik.

Sjá einnig:Milos: Ef ég myndi segja það sem mig langar til að segja færi ég í langt bann

"Við skoruðum löglegt mark á móti KR og annað á móti Stjörnunni. Svo er ég tekinn niður í kvöld þegar ég er kominn í gegn en ekkert dæmt."

"Ég ætla ekki að kenna dómaranum um að við unnum ekki leikinn því hann skoraði ekki markið fyrir Breiðablik, hann klúðraði ekki af tveggja metra færi fyrir okkur. Stóru liðin fá samt alltaf dómana með sér og þannig hefur þetta verið í fyrstu þremur leikjunum. Mér líður illa fyrir hönd liðsfélaga minna því þeir lögðu sig alla fram," sagði Gary.

Víkingar eru aðeins búnir að skora eitt mark í þremur leikjum og Gary er ekki kominn á blað. Hann er samt ekki sammála því að byrjunin hafi verið erfið hjá Víkingum.

"Þetta hefur ekki verið erfitt. Við áttum að vinna KR tvö eða þrjú núll. Við skoruðum löglegt mark þar og yfirspiluðum svo Stjörnuna í fyrri hálfleik og áttum að vera þrjú núll yfir. Í kvöld áttum við að skora tvö áður en Breiðablik skorar," sagði hann.

"Við verðum að líta í eigin barm. Milos leggur leikinn fullkomlega upp og við vitum algjörlega hvernig allir eiga að spila. Við eigum að skora á undan Blikum í kvöld en gerum það ekki. Það eru bestu liðin sem vinna deildina sem nýta færin sín. Það er enginn munur á liðunum í þessari deild, þetta nýst bara um að nýta færin. Stjarnan skapaði sér eitt færi en vann okkur með smá töfrum fyrir utan teiginn."

"Ég er ekki búinn að skora en ég lagði mig allan fram í kvöld og er ánægður með sjálfan mig," sagði Gary.

Þrátt fyrir að vera aðeins með eitt stig eftir þrjá leiki hefur Gary engar áhyggjur af framhaldinu hjá Víkingum sem ætla sér Evrópusæti í ár.

"Ég hef engar áhyggjur. Við áttum að vinna KR og Stjörnuna en þar gerðum við mistök. Það þýðir ekkert bara að kenna Milos um það. Ein skipting tapar ekki leiknum," sagði Gary.

"Við erum ekki búnir að vinna leik en við erum búnir að spila við þrjú bestu liðin og ættum að vera með sex stig. Nokkrar ákvarðanir hafa svo ekki fallið með okkur," sagði Gary Martin.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.