Erlent

Neyðarástand í Frakklandi framlengt yfir EM

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn við Eiffel turninn.
Hermenn við Eiffel turninn. Vísir/AFP
Yfirvöld í Frakklandi hafa ákveðið að framlengja hæsta viðbúnaðarstig þar í landi um tvo mánuði, eða fram yfir Evrópumótið í Fótbolta og Tour de France hjólreiðakeppnina. Neyðarástandi var lýst yfir eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember. Þegar var búið að framlengja viðbúnaðarstigið um þrjá mánuði eða til 26. maí.

„Hryðjuverkaógnin er enn mikil og Frakkland, eins og Evrópusambandið, er skotmark,“ sagði Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands. Búist er við milljónum ferðamanna til Frakklands í júní og júlí vegna bæði EM og TDF. Þar á meðal verða fjölmargir Íslendingar.

Viðbúnaðarstigið og yfirlýst neyðarástand gerir yfirvöldum kleift að setja fólk sem talið er vera ógn við almenning í stofufangelsi án dóms og laga. Lögreglan hefur einnig getað gert árásir á heimili fólks án dómsúrskurðar, en sú heimild fellur úr gildi með nýrri framlengingu.

Um miðjan apríl sögðu yfirvöld Frakklands að frá árásunum hefðu um 3.500 leitir verið framkvæmdar, 56 höfðu verið færðir í varðhald og 69 settir í stofufangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×