Erlent

Svartfellingar á leið inn í NATO

Bjarki Ármannsson skrifar
Igor Lukicz, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Svartfjallalands, tekur í höndina á Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO í fyrra.
Igor Lukicz, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Svartfjallalands, tekur í höndina á Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO í fyrra. Vísir/EPA
Atlantshafsbandalagið (NATO) og Svartfjallaland skrifa í dag undir samkomulag þess efnis að Svartfellingar verði 29. aðildarþjóð samtakanna.

Hin aðildarríkin 28, Ísland þar á meðal, þurfa að vísu að samþykkja inngöngu ríkisins, og er búist við því að það ferli geti tekið hálft annað ár.

Aðildarríkjum NATO hefur ekki fjölgað frá árinu 2009, þegar Albanía og Króatía bættust í hópinn.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi í gær að innganga Svartfjallalands í bandalagið væri skýrt merki um það að aðildarríkin vinni enn að því að tryggja öryggi og stöðugleika á vesturhluta Balkanskagans.

Rússar hafa gert harða hríð að bandalaginu frá því að Svartfellingum var boðin aðild fyrir áramót. Samband Rússlands og NATO hefur verið mjög stirt undanfarin misseri og segir Vladimír Pútín Rússlandsforseti að útþensla NATO til austurs ógni öryggi Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×