Erlent

Svartfjallalandi boðin NATO-aðild

guðsteinn bjarnason skrifar
Igor Lukicz, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Svartfjallalands, tekur í höndina á Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.
Igor Lukicz, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Svartfjallalands, tekur í höndina á Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Fréttablaðið/EPA
Svartfjallaland Fyrir sextán árum stóð Atlantshafsbandalagið, NATO, fyrir sprengjuárásum á Svartfjallaland, sem þá var enn partur af Júgóslavíu og Kosovo­stríðið stóð sem hæst. Nú er landinu boðin aðild að NATO.

„Himinlifandi með að bjóða Svartfjallalandi að hefja aðildarviðræður með það fyrir augum að verða 29. aðildarland NATO,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á Twitter í gær.

„Þetta er byrjunin á frábæru sambandi,“ sagði hann í gær á leiðtogafundi í Brussel.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti var hins vegar ekki sáttur við tíðindin. Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, sagði að þetta myndi kalla á hörð viðbrögð af hálfu Rússa: „Áframhaldandi útþensla NATO og hernaðarinnviða NATO til austurs getur ekki annað en kallað á hefndaraðgerðir frá austri, það er frá Rússum,“ sagði Peskov.

Enginn einhugur virðist ríkja í Svartfjallalandi sjálfu um hugsanlega aðild að NATO. Reiknað er með að aðildarviðræðurnar geti tekið eitt ár.

Aðildarríkjum NATO var síðast fjölgað árið 2009 þegar Albanía og Króatía bættust í hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×