Fótbolti

Lagerbäck: Við erum ekki tilfinningalausir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck segir að það hafi verið erfið ákvörðun, bæði að tilkynna að hann myndi hætta sem landsliðsþjálfari eftir EM í sumar og hvaða 23 leikmenn yrðu valdir í lokahóp Íslands fyrir EM í sumar.

Hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi í dag en hann hófst með því að Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti um þá ákvörðun Lars Lagerbäck að endurnýja ekki samning sinn við KSÍ.

„Þetta var auðvitað erfið ákvörðun. Ég hef notið þessara fjögurra ára og þetta hefur verið frábær tími,“ sagði Lagerbäck en viðtalið má sjá heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég er fæddur of snemma og þarf að vera raunsær. Ég held að það sé tímabært fyrir mig að hætta. Ég verð 68 ára í sumar og það er aðalástæðan.“

Hann segist hafa notið þeirra forréttinda að hafa fengið að þjálfa öflug landslið á sínum ferli.

„Það er erfitt að bera þetta saman en það er alltaf sérstakt að komast á stórmót. Ég naut hverrar mínútu og ég tel að Svíþjóð og mörg önnur lönd geti lært heilmikið af Íslandi.“

Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson völdu 23 manna lokahóp sinn fyrir EM í sumar og segir hann að það hafi vitanlega verið erfitt. En starfið krefur hann um erfiðar ákvarðanir.

„Það er gott að þetta sé búið og nú getum við lagt lokahönd á okkar áætlanir fyrir næstu vikur. Það er alltaf gott að klára þetta.“

„En við erum manneskjur og ekki tilfinningalausar. Ég hef lært á árunum að maður verður að líta á þetta út frá faglegum sjónarmiðum. Við verðum að hugsa um hvað sé best fyrir íslenska landsliðið og íslenska knattspyrnu.“

„Ef þú getur ekki lifað með því þá ættirðu ekki að vera í þessu starfi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×