Fótbolti

Kína ætlar að vera stórveldi í fótboltaheiminum fyrir árið 2050

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ramires og Alex Teixeira eru komnir í kínverska boltann.
Ramires og Alex Teixeira eru komnir í kínverska boltann. Vísir/Getty
Kínverjar hafa sett saman metnaðarfulla áætlun sem á að stuðla að því að Kína verði orðið stórveldi í alþjóðlegum fótbolta fyrir árið 2050.

Kínversk stjórnvöld hafa sett saman ítarlegan bækling um dagskrána næstu þrjá áratugina en til að byrja með á að reyna að fá 50 milljónir kínverska barna og fullorðinna til þess að spila fótbolta.

Kínverjar ætla síðan að byggja eða endurnýja sextíu þúsund knattspyrnuvelli á næstu sex árum.

Markmiðið er að árið 2050 eigi Kína heimsklassa fótboltalið hvort sem er landslið eða félagslið.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur mikinn metnað fyrir hönd fótboltans í landinu. Hann hefur látið hafa það eftir sér að hann vilji sjá Kína komast inn á Heimsmeistarakeppnina, halda heimsmeistarakeppnina og vinna heimsmeistarakeppnina.

Kínversk karlalandsliðið hefur aðeins komist á eitt heimsmeistaramót en það var á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002 þegar liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum.

Kína endaði í sjöunda sæti í síðustu Asíukeppni en besti árangur kínverska liðsins er frá 1984 og 2004 þegar kínverska karlalandsliðið endaði í öðru sæti.

Kínversku konurnar komust í átta liða úrslitin á HM í Kanada á síðasta árið en urðu þá að sætta sig við 1-0 tap á móti verðandi heimsmeisturum Bandaríkjanna.

Kínverska kvennalandsliðið hefur verið með á sex heimsmeistaramótum og spilaði til úrslita árið 1999. Það er því mun styttra fyrir þær á toppinn.

Íslensku landsliðsmennirnir Eiður Smári Guðjohnsen, Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen spiluðu allir í kínversku deildinni á síðustu leiktíð og Sölvi Geir verður í ár sá fyrsti til að spila fyrir tvö kínversk félög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×