Erlent

Putin og Poroshenko ræddu fangaskipti

Samúel Karl Ólason skrifar
Nadiya Savchenko, Aleksandr Aleksandrov og Yerofeyev Yevgeny Yerofeyev.
Nadiya Savchenko, Aleksandr Aleksandrov og Yerofeyev Yevgeny Yerofeyev. Vísir/EPA/AFP
Vladimir Putin og Petro Poroshenko, forsetar Rússlands og Úkraínu, ræddu möguleg fangaskipti í síma í dag. Tveir menn sem sagðir eru vera rússneskir sérsveitarmenn voru dæmdir í fjórtán ára fangelsi í Úkraínu í dag. Í síðasta mánuði var úkraínska þingkonan Nadiya Savchenko dæmd í 22 ára fangelsi í Rússlandi.

Þeir Aleksandr Aleksandrov og Yerofeyev Yevgeny Yerofeyev voru handsamaðir í austurhluta Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar, hliðhollir Rússlandi, hafa barist fyrir sjálfstæði. Þeir voru dæmdir fyrir að hafa farið ólöglega yfir landamæri Úkraínu, vopnaburð og aðild að hryðjuverkasamtökum.

Yfirvöld í Úkraínu segja þá vera rússneska sérsveitarmenn sem hafi barist með aðskilnaðarsinnum. Rússar segja hins vegar að þeir hafi ekki starfað fyrir rússneska herinn þegar þeir voru handsamaðir.

Nadiya Savchenko var handsömuð af aðskilnaðarsinnum þar sem hún tók þátt í bardögum í austurhluta Úkraínu. Hún er flugmaður og var dæmd fyrir að hafa kallað eftir stórskotaárás úr lofti. Rússar segja að tveir rússneskir blaðamenn hafi látið lífið í árásinni.

Sjá einnig: Vilja önnur réttarhöld yfir Savchenko

Samband ríkjanna hefur versnað verulega frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga af Úkraínu árið 2014. Þá eru Rússar sagðir hafi veitt aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu mikinn stuðning.

Samkvæmt BBC hafði Poroshenko áður stungið upp á því að skipt yrði á Savchenko og tveimur Rússum, en ekki liggur fyrir hvort hann var að tala um þá Aleksandrov og Yerofeyev.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×