Erlent

Vill binda endi á átök milli Armeníu og Aserbaídsjan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/EPA
Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur kallað eftir því að stríðandi fylkingar í Nagorno Karabakh í Aserbaídsjan leggi niður vopn hið snarasta. Tugir eru sagðir vera látnir í einhverjum verstu átökum á svæðinu í tvo áratugi. Aserbaídsjan og Armenía hafa lengi deilt um yfirráð á héraðinu. Það hefur verið í höndum aðskilnaðarsinna sem rekja ættir sínar til Armeníu frá því að síðasta stríði lauk þar 1994.

Í raun hófust átökin á níunda áratuginum og urðu þau að stríði við fall Sovíetríkjanna. Um 30 þúsund manns féllu í átökunum, sem enduðu með vopnahléi árið 1994.

Báðar fylkingar saka hvorn annan um að hafa rofið vopnahléið sem er þar í gildi. Á vef fréttaveitunnar Tass, sem er rekin af rússneska ríkinu, segir að yfirvöld í Aserbaídsjan saki her Armeníu um að gera stórskotaárás á þorp og bæi á landamærum héraðsins. Armenar segja að hermenn frá Aserbaídsjan hafi hafið sókn inn í héraðið.

Armenía segir að 18 hermenn hafi farist í átökunum og Aserbaídsjan segir að tólf hermenn þeirra hafi fallið. Þá hafa borist óstaðfestar fregnir af mannfalli meðal almennra borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×