Fótbolti

Neymar ekki með Brasilíu í Suður Ameríkukeppninni í sumar

Neymar hefur mátt sæta gagnrýni fyrir leik sinn með Brasilíu en hann er enn stærasta stjarna liðsins.
Neymar hefur mátt sæta gagnrýni fyrir leik sinn með Brasilíu en hann er enn stærasta stjarna liðsins. vísir/getty
Josep Bartomeu, forseti Barcelona, hefur látið hafa eftir sér að Barcelona og knattspyrnusamband Brasilíu hafi gert með sér samkomulag þess efnis að Neymar muni ekki spila með Brasilíu í Suður Ameríkukeppninni í sumar en að hann muni hins vegar spila með landsliði sínu á Ólympíuleikunum sem fram fara í Ríó í ágúst.

Brasilía hefur aldrei unnið til gullverðlauna í knattspyrnu á Ólympíuleikum og Brasilíumenn leggja mikla áherslu á að það verði að veruleika á heimavelli í sumar.

Síðustu daga hafa bæði Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, og Gilmar Rinaldi, forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, gefið það í skyn að Neymar muni spila í báðum keppnum. En Bartomeu virðist hafa tekið af allan vafa um það mál.

"Það er ómögulegt að sannfæra okkur um að leyfa honum að spila í báðum keppnum. Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi keppninnar [Suður Ameríkukeppninnar] en okkar sjónarmið er að leikmenn þurfa hvíld eftir tvö erfið tímabil," segir Bartomeu.

"Við sjáum ekkert að því að leikmaðurinn spili á Ólympíuleikunum," segir Bartomeu ennfrekar og bætir við að Neymar sé nálægt því að framlengja samning sinn við Barcelona.

"Við þurfum ekkert að flýta okkur. Við munum ekki setja pressu á leikmanninn og þvert á móti munum við leyfa honum að einbeita sér að því að spila. Ég veit að þetta verður ekkert vandamál af því að leikmaðurinn hefur sjálfur sagt að hann vilji vera hér lengur. Við viljum að hann endi sinn feril hér," segir Bartomeu, forseti Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×