Innlent

Sigrún fagnar því að fá fjölskylduvin í ríkisstjórn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sigrún Magnúsdóttir var sveipuð Framsóknargrænum hálsklút.
Sigrún Magnúsdóttir var sveipuð Framsóknargrænum hálsklút. Vísir/Birgir
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sér mikið eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra en er ánægð með að fá Lilju Alfreðsdóttur inn í ríkisstjórn.

Þetta kom fram í aukafréttatíma Stöðvar 2 sem sendur er út frá Bessastöðum í beinni.  

Sigrún segir að um fjölskylduvin sé að finna í Lilju enda starfaði Sigrún náið með föður hennar, Alfreð Þorsteinssyni. Alfreð var mikilsmetinn innan Framsóknarflokksins og gegndi stöðu borgarfulltrúa fram til ársins 2006. „Auðvitað erum við í sárum. Vitaskuld. Mér finnst þetta persónulegur harmleikur og auðvitað líður manni illa út af því. En lífið heldur áfram.“

Heimir Már Pétursson náði tali af Sigrúnu á Bessastöðum þar sem hún kom til ríkisráðsfundar sem haldinn verður í dag. Þar mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson biðjast lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Í kjölfarið mun ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar taka við. 

Gunnar Bragi Sveinsson verðandi fyrrum utanríkisráðherra.Vísir/Birgir
Þá náði Heimir tali af Gunnari Braga Sveinssyni, fyrirrennara Lilju í starfi en hún mun taka við utanríkisráðuneytinu. Gunnar Bragi fer í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og líst vel á það. 

„Ég er sáttur,“ sagði Gunnar Bragi. „Ég sé mjög eftir Sigmundi Davíð. Hann stóð sig gríðarlega vel sem ráðherra.“ Gunnar Bragi segir að Sigmundur þurfi nú að slaka á og hugsa sinn gang. Gunnar Bragi segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að honum hafi verið skipt úr utanríkisráðuneytinu. 

„Ég hef verið mikið í burtu og því er ekkert leiðinlegt að koma heim.“

Gunnar Bragði segist munu staðfesta nýjan búvörusamning. Spurður hvort það sé forgangsmál sagði hann: „Hann er tilbúinn.“

Bæði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra sögðust ánægð með breytingarnar sem gera þurfti á ríkisstjórninni þegar þau voru spurð af fjölmiðlum við komuna til Bessastaða. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×