Innlent

Guðmundur Franklín gefur kost á sér til forseta

Bjarki Ármannsson skrifar
Guðmundur Franklín Jónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi formaður Hægri grænna, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Í tilkynningu segist hann heppinn að vera Íslendingur og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp á Íslandi.

„Ég er alltaf bjartsýnn, maður verður að vera bjartsýnn þegar maður býður sig fram í svona kosningum,“ sagði Guðmundur Franklín í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni nú í morgun.

Hann segist halda mikið upp á störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta og vill halda hans merki á lofti, verði hann forseti.

„Ég mun ekki hika við að beita 26. greininni, um málskotsrétt, og þá myndi ég miða við að tíu prósent atkvæðabærra manna skoruðu á mig,“ segir hann. „Það er ágætt að hafa það áfram til að minna stjórnmálamenn á það að það er einhver talsmaður fólksins.“

Guðmundur Franklín hefur undanfarin ár haft lögheimili í Tékklandi en hann segist hafa skráð lögheimili á Íslandi í síðasta mánuði. Hlýða má á viðtalið við hann í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×