Innlent

Guðmundur Franklín gefur kost á sér til forseta

Bjarki Ármannsson skrifar

Guðmundur Franklín Jónsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi formaður Hægri grænna, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Í tilkynningu segist hann heppinn að vera Íslendingur og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp á Íslandi.

„Ég er alltaf bjartsýnn, maður verður að vera bjartsýnn þegar maður býður sig fram í svona kosningum,“ sagði Guðmundur Franklín í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni nú í morgun.

Hann segist halda mikið upp á störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta og vill halda hans merki á lofti, verði hann forseti.

„Ég mun ekki hika við að beita 26. greininni, um málskotsrétt, og þá myndi ég miða við að tíu prósent atkvæðabærra manna skoruðu á mig,“ segir hann. „Það er ágætt að hafa það áfram til að minna stjórnmálamenn á það að það er einhver talsmaður fólksins.“

Guðmundur Franklín hefur undanfarin ár haft lögheimili í Tékklandi en hann segist hafa skráð lögheimili á Íslandi í síðasta mánuði. Hlýða má á viðtalið við hann í spilaranum hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.