Erlent

Handtökur eftir að ráðist var að minningarathöfn í Brussel

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Lögreglan í Brussel handtók tíu manns þegar öfgasinnar réðust inn á Place de la Bourse torgið í dag, þar sem fjöldi fólks hafði safnast saman til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásanna á þriðjudag.

Um tvö hundruð þjóðernissinnar, margir svartklæddir og með grímur, réðust inn á torgið þar sem fjöldi fólks var saman komin og hrópuðu slagorð gegn innflytjendum og köstuðu reyksprengjum. Réðust öfgasinnarnir að múslimum sem komið höfðu á torgið til taka þátt í minningarathöfn um þá sem létust í hryðjuverkaárásunum, kölluðu þá öllum illum nöfnum og sögðu þeim að hypja sig.

Óeirðarlögregla greip til aðgerða og sprautaði vatni á öfgasinnanna. Tíu voru handteknir en óttast er að árásirnar verði sem olía á eld útlendingahaturs í landinu.

Ítalska lögreglan handtók í gærkvöld alsírskan karlmann, Djamal Eddine Ouali, sem talið er að tengist hryðjuverkaárásunum í Brussel í síðustu viku og í París í nóvember í fyrra. Er hann grunaður um að hafa útbúið fölsuð skilríki fyrir árásarmennina en mynd af öðrum hryðjuverkamanninum sem sprengdi sig á Zaventem flugvelli í síðustu viku fannst heima hjá honum.

Verður Ouali líklega framseldur til Belgíu á næstu dögum en ítalska lögreglan kannar nú hvernig hann kom til landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×