Erlent

Obama hvetur frambjóðendur til hófstilltrar umræðu

Birgir Olgeirsson skrifar
Obama hvatti frambjóðendur til að láta af svívirðingum og að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi á meðal Bandaríkjamanna.
Obama hvatti frambjóðendur til að láta af svívirðingum og að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi á meðal Bandaríkjamanna. Vísir/Getty
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur varað frambjóðendur í forvalinu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum við því að gera út á reiði kjósenda.  Þetta sagði Obama á fjáröflunarviðburði Demókrata eftir að til átaka kom á milli stuðningsmanna og mótmælenda Donalds Trump fyrir baráttufund hans í Chicago á föstudag.

Obama hvatti frambjóðendur til að láta af svívirðingum og að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi á meðal Bandaríkjamanna.

„Það sem frambjóðendur ættu að einbeita sér að er hvernig við getum bætt hlutina. Þeir ættu að eyða minni orku í svívirðingar, barnslega stríðni og að búa til staðreyndir,“ sagði Obama og hvatti til þess að frambjóðendur létu af því að reyna að valda ósætti á milli kynþátta og trúarbragða.

Donald Trump.Vísir/AFP
Trump varð að hætta við baráttufundinn með stuðningsmönnum sínum í Chicago á föstudag eftir að til átaka kom á milli mótmælenda og stuðningsmanna hans.

Hann hélt kosningabaráttu sinni áfram í Ohio í gær þar sem leyniþjónustumenn umkringdu hann í borginni Daytona eftir að karlmaður reyndi að komast í gegnum öryggisgæsluna.

Trump hefur tekið harða afstöðu gegn innflytjendum og lofað að reisa vegg við landamæri Mexíkó. Fyrr í vikunni sagði hann þá sem aðhyllast íslamstrú hata Bandaríkjamenn.

Í viðtali við fréttastöðina Fox á föstudag sagðist hann ekki vera að etja stríðandi fylkingum saman. „Ég fulltrúi fólks sem býr yfir mikilli reiði. Það er töluverð reiði í báðum fylkingum.“

Trump er með forystu í forvali Repúblikanaflokksins en helstu keppinautar hans, Marco Rubio og Ted Cruz, sögðu átökin á baráttufundi Trumps hafa verið sorgleg. Cruz sakaði Trump um að skapa andrúmsloft sem ýtir undir slíka hegðun. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×