Erlent

Heilaskurðlæknirinn Carson styður Trump sem forsetaefni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ben Carson á blaðamannafundi með Donald Trump í gær.
Ben Carson á blaðamannafundi með Donald Trump í gær. Nordicphotos/AFP
Heilaskurðlæknirinn Ben Carson, sem nýlega hætti við að sækjast eftir að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur nú lýst yfir stuðningi við Donald Trump.

„Donald Trump talar mikið um að gera Bandaríkin mikilfengleg,“ sagði Carson þegar hann skýrði frá þessu í gær. „Þetta var ekki bara tal, hann meinar þetta.“

Ríkisstjórinn Chris Christie hefur einnig lýst yfir stuðningi við Trump, og slíkt hið sama gerði Sarah Palin, sem sóttist eftir að verða forsetaefni flokksins árið 2008.

Trump hefur mikla yfirburði gagnvart mótherjum sínum þremur, sem enn vonast til þess að verða forsetaefni flokksins.

Forkosningatímabilið er ekki hálfnað, en Trump hefur tryggt sér stuðning 458 fulltrúa á landsþingi Repúblikanaflokksins í júlí. Hann þarf 1.237 atkvæði til að tryggja sér sigur.

Ted Cruz er kominn með 359 fulltrúa, Marco Rubio 151 og John Kasich 54.

Á þriðjudaginn kemur, sem nefndur er „litli ofurþriðjudagurinn“, verða forkosningar haldnar í nokkrum mikilvægum ríkjum: Flórída, Illinois, Missouri, Norður-Karólínu og Ohio. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×