Erlent

Merkel segir gærdaginn hafa verið erfiðan fyrir Kristilega demókrata

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari er formaður Kristilegra demókrata.
Angela Merkel Þýskalandskanslari er formaður Kristilegra demókrata. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að gærdagurinn hafi verið erfiður fyrir flokk hennar, Kristilega demókrata, en kosningar fóru þá fram í þremur sambandslöndum.

Hægri öfgaflokkurinn Alternativ für Deutschland (AfD) jók fylgi sitt í kosningunum en flokkurinn hafði í kosningabaráttunni talað mikið gegn stefnu Merkel og stjórnar hennar í málefnum flóttafólks.

Í frétt BBC kemur fram að talsmaður Þýskalandsstjórnar hafi sagt að engar breytingar yrðu gerðar á innflytjendastefnu landsins.

Merkel sagði að þörf væri á samevrópski lausn á vandanum. Hún hefði enn ekki komið fram og það hafi haft áhrif á útkomu kosninganna sem fram fóru í Baden Württemberg, Rínarlandi Pfalz og Saxlandi Anhalt.

Kristilegir demókratar töpuðu fylgi en er enn stærsti flokkurinn í Saxlandi Anhalt þar sem AfD vann sinn stærsta sigur og hlaut um fjórðung atkvæða.

Kristilegir demókratar missu um þriðjung fylgis síns í Baden-Württemberg og hlaut alls 27 prósent. Græningjar eru nú stærsti flokkurinn í sambandslandinu, en AfD hlaut fimmtán prósent atkvæða.

Í Rínarlandi-Pfalz eru Jafnaðarmenn enn stærstir, Kristilegir demókratar næststærstir og AfD fjórði stærsti flokkurinn eftir að hafa hlotið 12,5 prósent.

AfD á nú fulltrúa á fimm af sextán þingum sambandslanda Þýskalands.


Tengdar fréttir

Þýskir þjóðernissinnar eflast á fylkisþingunum

Niðurstaða fylkiskosninga í Þýskalandi þykir áfall fyrir Merkel og áfellisdómur yfir frjálslyndri innflytjendastefnu hennar. AfD-flokkurinn á nú fulltrúa á átta af sextán fylkisþingum Þýskalands. Berjast fyrir strangari innflytjendalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×