Erlent

Þýskir þjóðernissinnar eflast á fylkisþingunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Frauke Petry einn leiðtoga þjóðernisflokksins AfD fagnaði úrslitunum í gær.
Frauke Petry einn leiðtoga þjóðernisflokksins AfD fagnaði úrslitunum í gær. Nordicphotos/AFP
Þjóðernisflokkurinn AfD (Alternative für Deutschland) vann nokkurn sigur í fylkiskosningum í Þýskalandi í gær.

Kosið var í þremur fylkjum, Saxlandi-Anhalt, Rínarlandi-Pfalz og Baden-Württemberg.

AfD-flokkurinn átti áður enga fulltrúa á fylkisþingunum en náði engu að síður góðum árangri. Flokkurinn á þó þegar fulltrúa á fimm öðrum fylkisþingum. Þrátt fyrir sókn þjóðernissinna stefnir í að stjórnir allra fylkjanna haldi velli.

Árangur AfD þykir vera mikið áfall fyrir stjórn Angelu Merkel Þýskalandskanslara en AfD hefur mótmælt frjálslyndri innflytjenda- og flóttamannastefnu hennar og vill koma á harðari innflytjendalöggjöf.

Stefna og ummæli leiðtoga AfD hafa vakið mikla reiði á meðal fjölda Þjóðverja. Frauke Petry, einn leiðtogi flokksins, lét þau ummæli falla í kosningabaráttunni að landamæralögreglu í Þýskalandi ætti að vera heimilt að skjóta flóttamenn sem koma ólöglega til Þýskalands.

Stuðningur við AfD er túlkaður sem höfnun á stefnu Merkel en til að mynda tapaði flokkur hennar, Kristilegir demókratar, fylgi í öllum kosningunum. Fylgistapið var mest í Baden-Württemberg þar sem flokkur Merkel tapaði um 12 prósentum samkvæmt útgönguspám. Flokkurinn hefur aldrei verið jafn lítill í fylkinu með 27 prósent atkvæða. Kristilegir demókratar eru þó enn sem áður stærsti flokkurinn í Saxlandi-Anhalt.

Varakanslari Þýskalands, Sigmar Gabriel, sagði á laugardaginn að árangur AfD myndi ekki breyta stefnu ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum. Á sama tíma gengu um 2.000 þjóðernissinnar fylktu liði um stræti Berlínarborgar og hrópuðu: „Við erum fólkið, Merkel þarf að fara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×