Fótbolti

Eiður Smári: Stoltastur af því að standast væntingarnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohsen var til umfjöllunar í norska ríkissjónvarpinu á dögunum en hann er nú leikmaður Molde í Noregi þar sem hann ætlar að koma sér í form fyrir EM í Frakklandi í sumar.

Í viðtalinu er komið um víða völl og meðal annars rætt um hversu miklar kröfur voru gerðar til hans í æsku. Eiður Smári er vitanlega sonur Arnórs Guðjohnsen, eins besta knattspyrnumanns sem Ísland hefur átt.

„Ég er stoltastur af því að hafa staðist þær væntingar sem voru gerðar til mín þegar ég var yngri,“ sagði Eiður Smári í viðtalinu.

„Allir bjuggust við því að ég myndi eiga langan og farsælan feril. Að ná að standa undir því er frábært. Það efaðist enginn um að þessi strákur myndi fara langt ef allt færi vel.“

Þá var einnig rifjað upp þegar Eiður Smári kom inn á sem varamaður fyrir föður sinn í leik með íslenska landsliðinu, eins og frægt er.

„Hvert sem ég fer í heiminum man fólk eftir þessu. Það segir: „Já, þú ert þessi sem spilaði með pabba þínum.“ Þá gerir maður sér grein fyrir að þetta var stórt augnablik.“

Þetta stórskemmtilega innslag má sjá á heimasíðu Rúv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×