Fótbolti

Þjálfari Brasilíu vill frekar að Neymar spili á ÓL í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar er mikivægur brasilíska landsliðinu.
Neymar er mikivægur brasilíska landsliðinu. Vísir/Getty
Dunga, þjálfari brasilíska fótboltalandsliðsins, vill frekar að besti knattspyrnumaður brasilísku þjóðarinnar spili á Ólympíuleikunum en í Ameríkukeppninni í sumar.

Þetta er stórt knattspyrnuár fyrir Brasilíumenn þrátt fyrir að Ameríkukeppnin hafi farið fram í fyrra og heimsmeistarakeppnin fari ekki fram fyrr en eftir tvö ár.

Ástæðan er að í sumar mun fara fram bæði hundrað ára afmælismót Ameríkukeppninnar í júní og Ólympíuleikarnir í Ríó í ágúst.

Dunga er mættur til Spánar til að ræða sumarið við hinn 24 ára gamla Neymar en forráðamenn brasilíska sambandsins vilja að allir aðilar komist að samkomulagi og að sátt verði í þessum máli.

„Ef ég þarf að velja á milli Ameríkukeppninnar og Ólympíuleikanna þá vil ég frekar sjá Neymar á Ólympíuleikunum," sagði Dunga í viðtali við brasilísku sjónvarpsstöðina Esporte Interativo.

„Það er erfitt að velja á milli en ég tel að það sé mikilvægara að hann hjálpi Brasilíu að vinna einu gullmedalíuna sem þjóðin hefur ekki unnið í alþjóðafótboltanum auk þess að við erum að spila á heimavelli," sagði Dunga.

Brasilíumenn unnu silfur á síðustu Ólympíuleikum eftir tap á móti Mexíkó í úrslitaleik. Brasilía varð einnig að sætta sig við silfurverðlaun á leikunum í Seoul 1988 og í Los Angeles 1984. Liðið vann brons á leikunum í Peking 2008 og hefur því verið á palli á síðustu tveimur leikum.

„Við þurfum að tala við Barcelona, við liðið og við Neymar til þess að finna út hvað sé best í stöðunni," sagði Dunga.

Neymar hefur talað um það sjálfur að hann vilji spila í báðum keppnum en Barcelona gefur væntanlega bara grænt ljós á annað mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×