Innlent

Kostnaður við varanlegan varnargarð metinn 256 milljónir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mannvirkjum í Vík í Mýrdal er ógnað af ágangi sjávar.
Mannvirkjum í Vík í Mýrdal er ógnað af ágangi sjávar. vísir/heiða
Varanlegur garður, til varnar þess að sjávarrof ógni mannvirkjum í Vík í Mýrdal, mun líklega kosta um 256 milljónir króna. Kostnaður við endurbyggingu núverandi varnargarðs er metinn um sjötíu milljónir króna. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar.

Svæðið þar sem sjávarrof ógnar mannvirkjum er austan við núverandi garð sem byggður var árið 2011. Honum var ætlað að stöðva rof milli garðsins og Reynisfjalls en rofið ógnar byggð austan við hann. Til að stöðva sjávarrofið er miðað við að byggja þurfi annan garð um 700 metra austan við hann.

Í svari ráðherra kemur fram að hefjist aðgerðir í ár muni ekki þurfa að grípa til bráðaaðgerða. Kostnaður við slíkar aðgerðir eru allt að 25 milljónir króna en tekið er fram að gagn slíkra aðgerða sé takmarkað.

Sem stendur vinnur Vegagerðin að útfærslu og hönnum nauðsynlegra mannvirkja og er áætlað að stofnunin skili niðurstöðum til ráðuneytisins að því loknu. Framhald málsins verður ákveðið að þeirri vinnu lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×