Erlent

Óttast upplausn Evrópusambandsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Tusk á blaðamannafundi í Rúmeníu í dag.
Donald Tusk á blaðamannafundi í Rúmeníu í dag. Vísir/EPA
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, óttast upplausn sambandsins vegna mögulegrar brottgöngu Breta. Yfirvöld í Bretlandi reyna nú að semja við ESB um að breyta aðildarskilmálum sínum og til stendur að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í júní þar sem ákveða á hvort Bretar segi sig úr ESB eða samþykkja nýjan samning sem nú er unnið að .

„Það er tími til kominn að við hlustum á rök annarra frekar en okkar eigin,“ hefur AFP eftir Tusk. „Það er eðlilegt í samningaviðræðum að deilan harðni þegar nær dregur endalokum. Hættan á upplausn er þó raunveruleg þar sem þetta ferli er einstaklega viðkvæmt.“

Meðal annars sem Tusk býður Cameron upp á er „neyðarhemill” fyrir Bretland, sem þýddi að Bretland getur takmarkað atvinnutengdar bótagreiðslur til ríkisborgara annarra ESB-landa, sem búsettir eru í Bretlandi. Takmarkanirnar mega gilda í fjögur ár.

Sjá einnig: Eiríkur Bergmann um samningdrög Bretlands og ESB: „Þetta er klassísk evrópsk málamiðlun“

Tusk er nú á ferð um Evrópu, en leiðtogar ESB-ríkja munu funda á fimmtudaginn og föstudaginn. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vonast eftir því að ná samkomulagi um stöðu Bretlands á leiðtogafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×