Innlent

Innflutningur á ferskum kjötvörum auki hættu á sýklalyfjaónæmi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Karl Kristinsson, yfirlæknir sýklafræðideildar Landspítalans, segir það mikið áhyggjuefni verði innflutningur á ferskum kjötvörum leyfður hingað til lands. Það muni auka líkur á því að sýklalyfjaónæmi berist til landsins. 

Í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins sem skilað var í gær kemur fram að innflutningsbann íslenska ríkisins á fersku ófrosnu kjöti til Íslands standist ekki ákvæði EES samningsins. Á Íslandi þarf erlent kjöt að hafi verið fryst í þrjátíu daga áður en það er selt. Það gæti breyst á næstunni.

„Ég hef áhyggjur af því. Einkum vegna þess að það mun væntanlega auka líkurnar á því að sýklaónæmi berist til landsins. Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag,“ segir Karl.

Hann segir að ónæmið geti vissulega smitast með mönnum og fersku grænmeti en með innflutningi kjöts aukist líkurnar töluvert. 

„Það eykur ógnina. Ógnin er vissulega til staðar nú þegar, meðal annars með innflutningi á grænmeti frá útlöndum, en áhættan er náttúrlega mismikil eftir því hvaðan þessi matvæli koma,“ segir hann.

Karl telur að það ætti ekki að leyfa innflutning á hráu kjöti þar sem hér sé ekki skimað sérstaklega fyrir fjölónæmum bakteríum eins og gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar.

„Út frá lýðheilsusjónarmiði ætti ekki að gera það en ég veit að það þarf að taka inn fleiri sjónarmið en það og óraunhæft að gera ráð fyrir því. Hins vegar ef það er óheftur innflutningur þá eigum við að gera eitthvað um leið til þess að hindra og varna því að við fáum mikið af sýklalyfjaónæmum bakteríum til landsins. Sem eru jafnvel ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum,“ segir Karl Kristinsson.







 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×