Erlent

Sprenging í farþegaflugvél í Sómalíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gatið sem myndaðist var nokkuð stórt.
Gatið sem myndaðist var nokkuð stórt. Mynd/Harun Maruf á Twitter
Sprenging varð í farþegaflugvél í Austur-Afríku í gær sem leiddi til meiðsla tveggja farþega auk þess sem ýmislegt bendir til þess að maður hafi fallið út úr vélinni um gat sem myndaðist á hlið farþegarýmisins.

Erlendir miðlar fjalla um málið en flugstjórinn telur að sprengja hafi sprungið um borð í vélinni. Honum tókst þó að lenda vélinni örugglega á flugvellinum í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu. Guardian hefur eftir sprengjusérfræðingi að gatið sem myndaðist í hlið flugvélarinnar geti vel verið eftir sprengju.

74 farþegar auk áhafnar voru um borð í vélinni en yfirvöld í Sómalíu gátu ekki staðfest við Guardian að allir farþegarnir hefðu skilað sér. Leikur grunur á að einn hafi fallið út um gatið. Það sem rennur stoðum undir það er að lík fannst nærri bænum Balad í Sómalíu og er talið að maðurinn hafi mögulega fallið úr vélinni.

Serbneski flugstjórinn Valdimir Vodopivec sagðist aldrei hafa lent í öðru eins. Sem betur fer hefði flugbúnaður ekki orðið fyrir skemmdum og því ekki reynst erfitt að lenda vélinni.

Að neðan má sjá myndband úr vélinni sem farþegi tók. Þarna hafa allir farþegarnir fært sig aftar í vélinni vegna gatsins sem myndaðist framarlega í farþegarýminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×