Foringi eins flokks Talibana sagði í morgun að þeir hefðu framið árásina en helsti talsmaður þeirra segir nú að svo sé ekki. Herinn í Pakistan er hins vegar sannfærður um að Talibanar hafi framið árásina.
Í lok árs 2014 felldu vígamenn Talibana 130 nemendur í grunnskóla í Peshawar.
„Við erum staðráðin í að standa við skuldbindingar okkar og þurrka út hryðjuverk í landinu okkar,“ sagði Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, í dag.
Árásarmennirnir réðust til atlögu klukkan hálf tíu að staðartíma (4:30 hér heima) í morgun. Þeir klifruðu yfir vegg fyrir aftan skólann í skjóli mikillar þoku. Til mikils skotbardaga kom þegar öryggisverðir börðust við árásarmennina.
Þá hafa, samkvæmt frétt BBC, borist fregnir af því að efnafræðikennari hafi skotið á árásarmennina og þannig gefið nemendum sínum tíma til að flýja. Kennarinn var svo felldur af árásarmönnunum.