Erlent

NATO leitar leiða til að bregðast við „upplýsingavopni“ Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA/AFP
NATO leitar nú leiða til að sporna gegn því sem kallað er „upplýsingavopn“ Rússa. Í stað þess að beita áróðri gegn áróðri er unnið að því að gera fleiri leynileg gögn opinber og auka samskipti innan bandalagsins.

Bæði NATO og Evrópusambandið hafa lýst áhyggjum yfir getu Rússa til að nota sjónvarpsfréttir og internetið til að vísvitandi dreifa röngum upplýsingum. ESB setti á laggirnar sérstaka deild í fyrra sem ætlað er að bregðast við því sem kallað er „opinber áróður“.

Slíkar aðferðir voru notaðar til að styðja við innrás Rússa og innlimun á Krímskaga í Úkraínu.

Fréttamenn Reuters hafa séð drög að tillögum til að sporna gegn áðurnefndu vopni. Talið er að tillögurnar verði ræddar á allsherjarþingi NATO í Varsjá í júlí. Nú þegar hefur NATO aukið umsvif sín á samfélagsmiðlum og aukið virkni á Youtubesíðu bandalagsins.

Svara ekki áróðri með áróðri

Embættismenn sem Reuters ræddi við segja nauðsynlegt fyrir NATO bandalagið að vera opið og birta sannar upplýsingar.

„Eitt af grunngildum NATO er að við getum ekki svarað áróðri með meiri áróðri,“ sagði Oana Lungescu, talsmaður NATO

Stjórnvöld Rússlands hafa varið töluverðum fjármunum undanfarin ár í að byggja upp fjölmiðla eins og Sputnik og RT, sem vinna gegn því sem þeir kalla „vestrænan áróður“. Þá eru yfirvöld Rússlands mjög virk á samfélagsmiðlum. Þar að auki er rekin sérstök ríkisstofnun þar sem fólk vinnur við að dreifa áróðri á spjallborðum og athugasemdakerfum í heiminum. New York Times hefur fjallað ítarlega um stofnunina.

Einn sérfræðingur sem Reuters ræddi við sagði Rússa geta skapað þá raunveruleika sem þeir vildu til að ná markmiðum sínum. Meðal tillagna NATO eru leiðir til að bera kennsla á áróður Rússa snemma svo hægt sé að bregðast við honum sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×