Enski boltinn

Lykilmann Noregs dreymir um að komast á Ólympíuleikana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarte Myrhol fagnar marki með norska landsliðinu.
Bjarte Myrhol fagnar marki með norska landsliðinu. vísir/getty
Bjarte Myrhol, línumanni norska landsliðsins í handbolta, dreymir um að komast á Ólympíuleikana í Ríó, en mörg lið á EM í handbolta sem hefst í dag berjast fyrir sæti í Ólympíuumspilinu.

Myrhol verður í lykilhlutverki hjá norska landsliðinu á mótinu sem mætir strákunum okkar í fyrsta leik í dag klukkan 17.15.

„Það er minn stærsti draumur að spila á Ólympíuleikunum. Það er stærsti draumur allra handboltamanna. Við höfum samt lært að það er ekki auðvelt að komast þangað,“ segir Myrhol í viðtali við Dagbladet.

Noregur missti af sæti í undanúrslitum á EM 2008 þegar mótið var haldið þar í landi. Það varð líka til þess að Noregur fór í mun erfiðari riðil í forkeppni Ólympíuleikana heldur en Svíar sem unnu Noreg í leiknum um fimmta sætið.

Reyndar komust Svíar ekki heldur til Peking því þeir töpuðu fyrir Íslandi í hreinum úrslitaleik um ÓL-sæti í Wroclaw þetta sama ár.

„Það munaði svo litlu heima 2008. Við þurftum bara að vera aðeins skynsamari,“ segir Myrhol sem vonast eftir góðum árangri í Póllandi.

„Við erum með ungt lið. Það er gaman að sjá hversu margir spennandi leikmenn eru að koma upp. Hversu langt við náum fer eftir því hvort við getum gert litlu hlutina rétt. Eins og í fyrsta leik gegn Íslandi. Sá leikur mun ráðast með minnsta munm,“ segir Bjarte Myrhol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×