Erlent

Leiðtogi Írans segir guð ekki geta fyrirgefið aftökur Sádí-Araba

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Æðsti leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khamenei, hefur hótað stjórnvöldum í Sádí-Arabíu guðdómlegri hefnd.
Æðsti leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khamenei, hefur hótað stjórnvöldum í Sádí-Arabíu guðdómlegri hefnd. Vísir/AFP
Æðsti leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khamenei, hefur hótað stjórnvöldum í Sádí-Arabíu guðdómlegri hefnd vegna aftöku sjía-klerksins Sheikh Nim al-Nim aðfaranótt laugardags. Klerkurinn vinsæli barðist fyrir lýðræðisumbótum í austurhluta Sádí-Arabíu árið 2011.

Hann og 46 aðrir meintir hryðjuverkamenn voru teknir af lífi en aftökurnar fóru fram á nokkrum stöðum í landinu. Flestir voru hálshöggnir en aðrir mættu örlögum sínum frammi fyrir aftökusveit.

Fjölmenn mótmæli fóru fram í nokkrum ríkjum Miðausturlanda eftir að innanríkisráðuneytið í Sádí-Arabíu tilkynnti að al-Nim væri allur og meðal annars var kveikt í sádí-arabíska sendiráðinu í Teheran í Íran í gærkvöldi. Ayatollah Khamenei sagði í nótt að glæpur Sádanna væri slíkur að ómögulegt væri fyrir guð að fyrirgefa þeim. Verknaðurinn muni ásækja ráðamenn landsins um ókomna tíð.

Talið er að yfirvöld í Sádí-Arabíu hafi viljað senda skýr skilaboð með aftökunum. Það er að landið muni hvorki líða árásir af hálfu súnní-múslima né sjía-múslima, sem eru í minnihluta í landinu og hafa undanfarin ár barist fyrir auknu jafnrétti, meðal annars með vinsælum klerkum á borð við al-Nim.

Ayatollah Khamenei sagði í nótt að al-Nim hefði aldrei hvatt fólk til ofbeldisverka eða að ganga til liðs við vopnaðar uppreisnarsveitir. Þvert á móti hafi al-Nim lagt áherslu á opna umræðu og lýðræðisumbætur.


Tengdar fréttir

Aftökur draga dilk á eftir sér

Mikil ólga er í Austurlöndum nær vegna aftöku Sádí-Araba á 47 einstaklingum, þar af á einum mikilsmetnum trúarleiðtoga sem var einn helsti gagnrýnandi stjórnvalda í hinu íhaldssama ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×