Chopart stóð af sér baráttu við Kassim Doumbia, varnarmann FH, sem féll í grasið en Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við viðskipti þeirra.
Skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma meiddist Aron Bjarki Jósepsson, varnarmaður KR, illa á ökkla og þurfti að bera hann af velli sem skýrði óvenjulangan uppbótartíma í leiknum.
Fram að markinu hafði verið lítið um færi í leiknum sem var nokkuð jafn. Úrslitin eru þó afar mikilvæg þar sem að Stjarnan er nú aðeins einu stigi á eftir FH á toppnum og Fjölnir tveimur. KR hoppaði svo upp í sjöunda sæti deildarinnar og er nú með nítján stig.
Af hverju vann KR ?
KR-ingar fengu einfaldlega betri færi í leiknum og nýttu eitt þeirra. Það var einnig augljóst á KR-ingum að það er kominn mikill baráttuhugur í liðið og ætla leikmenn KR greinilega að koma liðinu aftur á beinu brautina. Liðið fer núna upp í 19 stig og er í raun komið í baráttu um Evrópusæti. FH-ingar eru sem fyrr í efsta sætinu en þeir þurfa að skoða sinn gang, sérstaklega sóknarlega.
Þessir stóðu upp úr
Kennir Knak Chopart var duglegur í leiknum og fékk boltann oft í lappir og reyndi að gera eitthvað við hann. Aftur á móti voru það varnarmennirnir sem stóðu upp úr í dag. Bergsveinn Ólafsson hjá FH og Indriði Sigurðsson hjá KR. Báðir stjórnuðu þeir varnarleik liðanna vel, nema FH-ingar misstu einbeitingu undir lok leiksins.
Hvað gekk illa?
Allt uppspil hjá FH gekk illa. Liðið náði illa að tengja saman nokkrar góðar sendingar og ef það gerðist voru þær aftarlega á vellinum. FH skapaði sér í raun ekki færi í leiknum, ekki neitt stórhættulegt. KR-ingar þurfa vissulega að skoða sóknarleik sinn og bæta hann, en liðið sýndi frábæran varnarleik í kvöld.
Hvað gerist næst?
Næst eru bæði lið að fara spila stórleiki. FH-ingar mæta Fjölni og KR-ingar mæta Breiðablik. Það gæti því margt skýrst í næstu umferð. Ætlar KR að blanda sér í toppbaráttuna? Eða ætlar FH að hleypa öðrum liðum á toppinn?
Heimir: Erum steinsofandi undir lokin

„Jafntefli hefðu nú sennilega verið sanngjörn úrslit, en við sluppum ekki í kvöld. Við spiluðum ekki nægilega vel í kvöld, eftir mjög góðan leik upp á Skaga í síðustu umferð. Það vantar stöðuleiki í okkar leik.“
Heimir segist vera ósáttur við það að leikmenn FH séu oft á tíðum að gefa boltann frá sér á slæmum stöðum á vellinum.
„Þeir fá dauðfæri í seinni hálfleik og kom það nokkuð eftir okkar klaufamistök. Í seinni hálfleik komust við í fína stöðu en það vantaði alltaf upp á þessa úrslitasendingu á síðasta þriðjungnum.“
Willum: Þetta gefur okkur ekki bara stigin þrjú, heldur eflir okkur í trúnni

„Hér fór fram hörkuleikur tveggja góðra liða. Mér fannst við hafa frumkvæðið í fyrri hálfleik og pressuðum þá mjög vel. Þeir fengu aldrei tækifæri að komast í sitt spil en við áttum í vandræðum með að skapa okkur færi í byrjun leiksins.“
Hann segir að svona leiki verði oft á tíðum einhverskonar refskák.
„Þetta datt síðan bara auðvitað fyrir okkur undir lokin. Þetta var óvenju sætt hjá okkur í kvöld. Við lögðum upp með að setja alltaf pressu á boltamanninn og gerðum það vel í kvöld,“ segir Willum og bætir við að liðið sé vel spilandi og KR-ingar geti alltaf skapað sér góð færi.
„Þessi deild er ótrúleg og sérstök. Við förum vel upp töfluna með þessum sigri. Við erum heldur betur að hressast núna. Það getur svo sannarlega verið dýrmætt fyrir okkur andlega að vinna Íslandsmeistarana á þeirra eigin heimavelli. Þetta gefur okkur ekki bara stigin þrjú, heldur eflir okkur í trúnni.“
Kennie: Hver sagði að FH væri besta liðið á Íslandi?

„Við gefumst aldrei upp í neinum leik, en undanfarið hafa hlutirnir ekki verið að falla með okkur. Núna erum við samt að berjast enn meira og ég er mjög ánægður með alla strákana í kvöld.“
Kennie skoraði sigurmarkið í uppbótaríma.
„Ég fékk boltann frá Denis, sem setti mig í gegn og ég veit ekki alveg hvað Doumbia var að gera í vörninni hjá FH. Ég er sterkur og hættulegur í þessari stöðu og vissi að ég myndi skora.“