Svo hefst harðorð yfirlýsing frá formanni Bændasamtaka Íslands, Sindra Sigurgeirssyni. Vísir greindi frá því í gær að Finnur Árnason, forstjóri Haga, hvetti til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykktan búvörusamning. Finnur sagði:
„Nú er rætt um að skora á Guðna Th. Jóhannesson að vísa nýjum búvörusamningum í dóm þjóðarinnar. Ég er enn á því að það sé góð hugmynd. Þegar ég skrifaði greinina datt mér hinsvegar ekki í hug að samningurinn innihéldi ríkisstyrkt dýraníð. Nóg var það samt,“ segir Finnur.
Finnur fyrirtækinu til háborinnar skammar
Bændur eru ekki kátir með þessi ummæli, einkum þau sem snúa að dýraníðinu. Sem þeir telja bera vott um fjandsamleg viðhorf til bænda.
„Honum er í sjálfsvald sett að gagnrýna samningana en ummæli af þessu tagi eru út fyrir öll mörk og bera vott um einkar fjandsamlegt viðhorf í garð íslenskra bænda. Ítrekað hefur forstjóri Haga haft uppi neikvæð ummæli um íslenskan landbúnað en með þessum tilteknu ummælum tekur steininn úr og eru því fyrirtæki sem hann starfar fyrir til háborinnar skammar.“
Menn verða að sýna lágmarks mannasiði
Í yfirlýsingunni segir að íslenskir bændur vinni að því hörðum höndum allan ársins hring að tryggja íslenskum almenningi heilnæm matvæli án sýklalyfja eða annarra aukaefna sem algeng eru í landbúnaði í öðrum löndum. „Það er eitt af forgangsmálum Bændasamtakanna að íslenskir bændur standist ítrustu kröfur um dýravelferð svo að Ísland verði í fararbroddi í þeim efnum.“

Myndi aldrei aldrei aldrei styðja dýraníð
Þá má einnig geta þess að Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sem greiddi búvörusamningnum atkvæði sitt, birti vinum sínum á Facebook mikinn reiðilestur. En tilefni hans var téð frétt Vísis.
„Getur þessi maður staðfest að allt kjöt, mjólkurvörur og aðrar landbúnaðarafurðir sem fluttar eru inn og seldar í verslunum Haga séu framleiddar við jafn miklar kröfur og íslenskar landbúnaðarafurðir?“ spyr Jóhanna. „Allt frá því að gripur fæðist til þess að lokaafurð verður til. Ég myndi aldrei, aldrei, aldrei styðja dýraníð. Ég hef umgengist búfénað frá unga aldrei og ætíð verið umhugað um velferð þeirra.“ Á Facebook hafa menn velt fyrir sér hæfi til að mynda þeirra Jóhönnu Maríu sem og Ásmundar Einars Daðasonar, við atkvæðagreiðsluna. En, bæði eru þau bændur og eru að greiða atkvæði fyrir hönd almennings um það sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur talað um sem kjarasamninga við bændur.