Fótbolti

Maradona vill að Napoli selji Higuaín og kaupi Harry Kane

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gonzalo Higuaín er lang besti framherjinn í Seríu A.
Gonzalo Higuaín er lang besti framherjinn í Seríu A. vísir/getty
Napoli mun selja argentínska framherjann Gonzalo Higuaín í sumar samkvæmt samlanda hans og goðsögninni í Napóli, Diego Maradona. Harry Kane er maðurinn sem hann vill fá í staðinn

Higuaín hefur verið magnaður á leiktíðinni fyrir Napoli og er lang markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar með 30 deildarmörk.

Argentínumaðurinn hefur verið frábær síðan hann kom til Napoli frá Real Madrid fyrir þremur árum síðan en hann er í heildina búinn að skora 65 mörk í 101 deildarleik á Ítalíu.

Maradona telur að Higuaín geti ekki endurtekið leikinn á næstu leiktíð og vill losna við hann áður en hann hættir að skora. Hann er líka viss um Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, sé á sama máli.

„Ég þekki De Laurentiis og hann mun held ég selja Higuaín,“ sagði Maradona í viðtali við Piuenne TV.

„Higuaín gaf allt sitt fyrir Napoli en ég held hann geti ekki haldið svona áfram. Við sáum hvað gerðist með Ezequiel Lavezzi.“

„Napoli fær svo mikinn pening fyrir Higuaín að það verður hægt að byggja frábært lið. Það verður ekki auðvelt að finna annan mann fyrir Higuaín en ef ég fengi að velja myndi ég kaupa Harry Kane,“ sagði Diego Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×