Þór vann sinn fimmta leik í röð í Inkasso-deildinni þegar liðið sótti Fjarðabyggð heim í dag. Lokatölur 2-3, Þór í vil, í ótrúlegum leik.
Agnar Darri Sverrisson var hetja Þórsara í dag en hann skoraði sigurmarkið þegar mínúta var til leiksloka.
Jóhann Helgi Hannesson kom Þór yfir með marki úr vítaspyrnu á 9. mínútu en eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik jafnaði Jose Alberto Djalo Embalo metin fyrir Fjarðabyggð.
Víkingur Pálmason kom heimamönnum svo í 2-1 á 58. mínútu þegar hann skoraði sitt fjórða mark í sumar.
En þá var komið að varamönnum Þórs. Gunnar Örvar Stefánsson jafnaði metin á 88. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Agnar Darri sigurmarkið. Aron Gauti Magnússon, leikmaður Fjarðabyggðar, fékk svo að líta rauða spjaldið í uppbótartíma.
Fjarðabyggð er í 9. sæti deildarinnar með sex stig en liðið hefur ekki unnið leik frá því í 2. umferðinni.

