Erlent

Drög að samningum Bretlands og ESB kynnt

Samúel Karl Ólason skrifar
David Cameron og Donald Tusk.
David Cameron og Donald Tusk. Vísir/EPA
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir drög að samningi vegna breytinga á sambandi Bretlands við Evrópusambandið bjóða upp á umfangsmiklar breytingar. Þó væri þörf á frekari vinnu, en hann hefur fundað stíft með Donald Tusk, formanni leiðtogaráðs ESB, síðustu daga.

Donald Tusk, formaður leiðtogaráðs ESB, birti samningsdrögin á tólfta tímanum í dag. Hægt er að skoða drögin hér. Framkvæmdastjórn sambandsins mun funda um tillögurnar á föstudaginn. Sjálfur sagði Tusk að drögin væru góður grunnur að málamiðlun.

Meðal annars fela tillögurnar í sér að Bretland geti neitað Evrópulöggjöf sem þeim líst ekki á. Einnig geta Bretar dregið úr bótum til farandfólks.

Eitt af baráttumálum David Cameron var að koma í veg fyrir að íbúar annarra ESB ríkja gætu komið til Bretlands og fengið hærri barnabætur en í heimaríkjum sínum. Í drögunum má ekki finna neitt um að ESB ætli að verða við því.

Bretar munu funda frekar með ESB um drögin í febrúar en David Cameron ætlar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í sambandinu í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×