Vatnið sem Ragnar Guðmundsson, eigandi Hótel Adam á Skólavörðustíg seldi í flöskum, var kranavatn. Gestir á hótelinu voru varaðir við því að drekka vatnið ekki heldur fjárfesta frekar í flöskum. Þetta staðfestir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur við fréttastofu RÚV.
„We recommend drinking bottled water, not from the tap“ voru skilaboðin sem gestirnir á hótelinu fengu. Flöskurnar voru seldar á 400 krónur en þegar hefur komið fram að niðurstöður Matvælastofnunar voru á þann veg að ekkert væri athugavert við kranavatnið í húsinu.
Sjá einnig:Bak við tjöldin á Hótel Adam
Hótelið var til umfjöllunar í síðasta mánuði sem leiddi til þess að sýslumaður tók hótelið til skoðunar. Í ljós kom að mun fleiri herbergi voru leigð út til ferðamanna en leyfi var fyrir. Var herbergunum í kjölfarið lokað.
Eigandi hótelsins, Ragnar Guðmundsson, hefur ekkert viljað tjá sig við Vísi þegar eftir því hefur verið leitað.
„Ég hef ekkert við þig að segja,“ voru svör Ragnars við blaðamann sem kom við á hótelinu á dögunum.
