Íslenski boltinn

Fjölnismenn óskuðu ekki eftir frestun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik á Fjölnisvelli síðastliðið sumar.
Úr leik á Fjölnisvelli síðastliðið sumar. Vísir/Pjetur
Kristján Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis, segir að það hafi ekki komið til greina af hálfu félagsins að biðja um frestun fyrir fyrsta leik liðsins í Pepsi-deild karla.

Fjölnir mætir ÍBV á Fjölnisvellinum á sunnudag og Kristján segir að hans menn hafi skoðað þann möguleika að skipta um heimaleik við Eyjamenn.

„Það var svo ekki gert. Það er allt í góðu og þetta reddast, þrátt fyrir að völlurinn sé ekki í sínu besta standi. Menn hafa spilað á verri völlum en þetta,“ sagði Kristján við Vísi.

Fjölnir á líka heimaleik í annarri umferð en Kristján hefur ekki áhyggjur af því. „Völlurinn fær sjö daga hvíld á milli leikja. Það verður bara að taka þessu. Fyrirkomulagið á mótinu er bara svona.“

Fylkir fékk að fresta sínum leik gegn Breiðabliki um helgina og hefur sú ákvörðun mótanefndar KSÍ að samþykkja beiðni Fylkis verið gagnrýnd.

Sjá einnig: Hjörvar: Voru Fylkismenn að kaupa sér tíma vegna meiðsla Alberts Ingasonar?

Kristján segir að næsta mál á dagskrá hjá Fjölni sé að koma upp áhorfendaaðstöðu. „Við þurfum að skila af okkur greinargerð til borgarinnar um miðjan júní um hvernig við viljum leysa okkar stúkumál. Það er alveg ljóst að þetta er síðasta árið sem við fáum undanþágu [frá leyfiskerfi KSÍ].“

Það hefur ekki verið mikið rætt um það innan raða Fjölnis hvort félagið eigi að skipta yfir í gervigras. „Ég er persónulega hlynntur gervigrasvæðingu, sérstaklega ef það á að reisa dýr mannvirki í kringum vellina. Það eykur notagildið margfalt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×