Juventus gerði út um Meistaradeildarvonir Napoli á næstu leiktíð með 3-1 sigri í leik liðanna í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Heimamenn hvíldu nokkra leikmenn, en Chiellini, Tevez, Andrea Pirlo, Arturo Vidal og Patrice Evra sátu meðal annars á bekknum.
Roberto Pereyra kom Juventus yfir og þannig stóðu leikar í hálfleik. David Lopez jafnaði metin á 50. mínútu.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom annað mark Juventus. Stefano Sturaro skoraði þá eftir undirbúning frá Alvaro Morata, en Simone Pepe bætti við þriðja marki Juventus í uppbótartíma úr vítaspyrnu.
Juventus hafði fyrir löngu tryggt sér ítalska deildarmeistaratitilinn, en þeir eru með 21 stigs forskot á Roma sem er í öðru sætinu.
Napoli er í fjórða sætinu og með miklu verri markahlutfall en Lazio sem er í þriðja sætinu. Lazio á einnig leik til góða svo Meistaradeildarvonir Napoli eru svo gott sem úti.
